Hinrik skoraði 11 mörk í 22 leikjum með Þrótti í fyrra og átti stóran þátt í að liðið hélt sér uppi í Lengjudeildinni.
„Við vissum það og lögðum gríðarlega áherslu á að fá Hinrik. Ég hef fylgst lengi með honum og alltaf verið mjög hrifinn af honum,“ segir Jón Þór í sjónvarpsþætti 433.is.
Skagamenn höfðu elst við Hinrik í nokkurn tíma.
„Við reyndum að kaupa hann áður en glugginn lokaði í sumar en hann var bara einbeittur á að klára sitt verkefni í Þrótti. Það var bara virðingarvert, þeir voru í fallbaráttu í Lengjudeildinni og hann vildi ekki fara frá borði á þeim tímapunkti. Það sýnir hugarfarið og þann einstakling sem hann hefur að geyma.“
Hinrik ákvað að flytja úr bænum og upp á Skaga eftir skiptin til ÍA.
„Það kom fram á fundum okkar í haust að ef hann myndi ganga til liðs við okkur myndi hann vilja fara alla leið, flytja upp á Skaga og gera þetta af krafti. Hann hefur svo sannarlega gert það,“ segir Jón Þór.
ÍA fór upp úr Lengjudeildinni í fyrra og er nýliði í Bestu deildinni á komandi leiktíð.