„Ég lagði leið mína á KR-völlinn síðastliðna helgi til að horfa á drenginn minn spila fótboltaleik, en hann er á ellefta ári og spilar því í fimmta flokki. Mér brá töluvert þegar leikurinn var að hefjast. Mér varð litið á dómarann sem var ekki mikið eldri en drengirnir sem voru að hefja leik. Hann var kannski árinu eldri, í mesta lagi tveimur árum eldri en leikmennirnir,“ skrifar Garðar og bendir á að þú þurfir að hafa náð 15 ára aldri til að öðlast dómararéttindi.
„Það er hinsvegar oft erfitt fyrir félögin að manna þessa leiki. Flestir vilja frekar spila fótbolta en að dæma fótbolta og því bregðast félögin oft við því að fá bara einhvern krakka til að dæma þessa leiki hjá yngri þátttakendunum… og komast upp með það því miður. En hvernig ætlar barn sem er að dæma fótboltaleik hjá nánast jafnöldrum sínum að takast á við erfiða foreldra á hliðarlínunni, erfiða leikmenn og jafnvel erfiða þjálfara?“
Garðar vill sjá fullorðna einstaklinga dæma þessa leiki þar sem þar þurfi reynslu og þekkingu.
„Að dæma unglingaleiki krefst skilnings á leiknum, reglum hans og getu til að taka skjótar ákvarðanir. Þó að ungir dómarar kunni að virðast áhugasamir og fúsir til að læra, þá skortir þeir oft reynslu, sem getur leitt til ósamræmis eða rangra ákvarðanna í leik, sem fullorðnir hafa úr hinu daglega lífi.
Að vera dómari fylgir líka ákveðið vald og virðing frá leikmönnum. Þó að virðing sé borin óháð aldri er óhætt að segja að fullorðið fólk hafi meiri möguleika á að öðlast virðingu frá leikmönnum. Í unglingaleik, miðað við aldursmun, geta ungir dómarar yfirleitt ekki fengið sömu virðingu, sem getur leitt til glundroða og agaleysis á vellinum. Það er mikilvægt fyrir leikmenn að skilja og fylgja þeim ákvörðunum sem dómarinn tekur og að hafa fullorðinn við stjórn getur gert það ferli mun auðveldara.“
Garðar leggur til lausn í þessu máli.
„Að börn séu að dæma hjá öðrum börnum er eitthvað sem verður að stoppa og ég er með hugmynd. Foreldrar sem eiga börn í íþróttum eru yfirleitt „all in“ og fylgja þeim hvert á land sem er, hvort sem það er um einn leik að ræða eða mót yfir eina helgi. Hvað munar þá um að taka einn leik eða að eyða einum klukkutíma af ferðinni að taka eina, tvær dómgæslur eða svo? Börnin sem eru látin dæma þessa leiki hafa yfirleitt engan áhuga á því né nógu mikla þekkingu eða þroska. Á móti gætu foreldarnir fengið afslátt á æfingagjöldum, jafnvel niðurfelld eftir leikjafjölda foreldra,“ skrifar hann.