Spænski fjölmiðillinn Marca segir í dag frá ótrúlegu atviki sem átti sér stað í Ísrael í gær. Þar komst 90 ára gömul kona hjá því að vera tekin til fanga af Hamas-liðum með því að minnast á Lionel Messi.
Í gærmorgun gerði Hamas árás á Ísrael þar sem 250 ísraleskir ríkisborgarar og hermenn voru teknir til fanga og fluttir til Gaza. Hin 90 ára gamla Ester Cunio lenti í því að ráðist var inn á heimili hennar.
Vopnaðir menn kröfðust þess að fá að vita hvar fjölskyldumeðlimir Cunio væru niðurkomnir en þá sagðist hún vera frá Argentínu. Einn mannanna spurði hvar það væri og þá spurði Cunio hvort hann horfði á fótbolta.
„Hann sagðist horfa á fótbolta og þá sagðist ég vera frá landinu hans Messi. Hann varð mjög hissa og sagðist elska Messi. Hann setti hönd sína á öxlina á mér og rétti mér byssuna sína. Hann fékk mig svo til að vera á mynd með honum,“ sagði Cunio, en mennirnir slepptu henni í kjölfarið.
Barnabörn hennar voru hins vegar tekin til fanga og Cunio biður um að þeim verði sleppt.
„Ef Lionel veit af því að ég minntist á hann og var bjargað myndi ég vilja fá barnabörnin mín til baka núna,“ sagði Cunio.