Sala Vals á Birki Heimissyni til Þórs er með þeim stærri í sögu íslenska boltans hvað fjárhæðir varðar. Þetta herma heimildir 433.is.
Það vakti mikla athygli þegar Þór kynnti Birki til leiks fyrir helgi. Hann er að snúa aftur til félagsins eftir átta ára fjarveru, en upphaflega gekk hann í raðir Heerenveen ungur að árum.
Birkir hefur verið hjá Val síðan 2020 og komið reglulega við sögu en ljóst er að hann verður algjör lykilmaður í liði Þórs sem ætlar sér stóra hluti í Lengjudeildinni á komandi leiktíð.
Birkir hefur alls leikið 125 leiki hér á landi og skorað þrettán mörk auk þess að hafa leikið 28 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim fimm mörk.
Þór setti mikinn metnað í að fá Birki til félagsins og sem fyrr segir er hann einn dýrasti leikmaður í sögu íslenska boltans. Í nýjasta þætti Þungavigtarinnar var til að mynda talað um sex milljónir króna en samkvæmt heimildum 433.is er talan mögulega hærri en það.
Þór hafnaði í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar í fyrra.