Vestri hefur samið við markvörðinn William Eskelinen. William er stór og reynslumikill markvörður og hefur hann meðal annars leikið í efstu deildum Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur.
Á síðasta tímabili var William aðalmarkvörður Örebro í Superettan í Svíþjóð.
„William er væntanlegur til landsins í vikunni og er spenntur að hefja undirbúning fyrir komandi tímabil. Við bjóðum William velkominn og hlökkum til að sjá hann í Vestra treyjunni,“ segir á vef Vestra.
Vestri hefur undanfarnar vikur verið í leit að markverði en Besta deild karla fer af stað eftir rúman mánuð.
Vestri er á leið inn í sitt fyrsta tímabil í efstu deild og er mikil eftirvænting á Ísafirði fyrir komandi tímabili.