Gríðarleg hækkun hefur orðið á skrifstofu- og rekstrarkostnaði KSÍ undanfarin ár. Þannig hefur kostnaðurinn aukist um 82 milljónir í stjórnunartíð Vöndu Sigurgeirsdóttur.
Vanda lætur af störfum sem formaður KSÍ á laugardag en ársreikningur sambandsins var birtur á föstudag.
Þar kemur fram að skrifstofu- og rekstrarkostnaður KSÍ var 405 milljónir á síðasta ári og var 8 milljónum meiri en gert var ráð fyrir.
Vekur þetta nokkra athygli enda hafði sambandið reiknað með að þessi kostnaðarliður myndi hækka um 46 milljónir á milli ára, þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir auknum kostnaði var framúrkeyrsla.
Vanda tók við sambandinu haustið 2021 en það árið var skrifstofu- og rekstrarkostnaðurinn 323 milljónir og hækkunin í hennar tíð því 82 milljónir króna.
Eru aukinn kostnaður og útgjöld sambandsins það sem aðildarfélögin og ÍTF (Íslenskur toppfótbolti) hafa gagnrýnt hvað mest að undanförnu.