Freddy Adu var jafn stórt nafn í MLS deildinni á sínum tíma og bæði Lionel Messi og David Beckham.
Þetta segir Thomas Rongen en hann þjálfaði Adu á sínum tíma sem lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir DC United 14 ára gamall.
Adu var gríðarlegt efni á sínum tíma en náði aldrei að standast væntingar og lagði skóna á hilluna fyrir þremur árum.
Messi er stærsta nafnið í MLS deildinni í dag en hann spilar með Inter Miami og er talinn vera einn besti leikmaður sögunnar.
,,Freddy Adu var alveg eins og Lionel Messi eða David Beckham,“ sagði Rongen en Beckham var gríðarlega stórt nafn hjá Los Angeles Galaxy á sínum tíma.
,,Þegar við mættum í útileiki voru 40 þúsund manns að kalla ‘Freddy, Freddy, Freddy.’
,,Athyglin var alltaf á Freddy Adu eins og athyglin er á Messi í dag. Ég man þegar við spiluðum við U20 landslið Haítí og þar mættu 18 þúsund manns, fólk vildi horfa á okkur æfa.“