KFA hefur fengið brasilíska framherjann Julio Cesar Fernandes í sínar raðir en síðustu tvö tímabil hefur Julio spilað með KF og Reyni Sandgerði í 2. og 3. deildinni.
Með KF skoraði Julio 16 mörk og lagði upp 7 í 17 leikjum í 2. deildinni 2022 og þegar hann spilaði með Reyni í fyrra skoraði hann 7 mörk og lagði upp 18 í 21 leik.
KFA var lengst af í efsta sæti 2. deildarinnar síðasta sumar en liðið gerði mistök undir restina og komst ekki upp. Félagið virðist stórhuga í sumar og samdi félagið við fyrrum landsliðsmanninn, Eggert Gunnþór Jónsson, á dögunum.
Julio er 27 ára gamall og hefur meðal annars spilað með liðum í Brasilíu, Finnlandi og Svíþjóð.
„Við sama tækifæri og stjórn KFA fagnar komu Julio þá viljum við tilkynna að argentínski framherjinn Selpa, sem spilaði með liðinu síðasta sumar, er meiddur og verður því ekki með KFA í sumar líkt og til stóð. Við sendum góðar kveðjur á Selpa og óskum honum góðs bata! Esperamos que tengas una pronta recuperación Esteban Selpa!,“ segir á vef KFA: