Stórlið Roma á Ítalíu vann leik sinn í Serie A í gær gegn Verona en honum lauk með 2-1 sigri heimamanna.
Daniele De Rossi var að stýra Roma í sínum fyrsta leik en hann tók við af Jose Mourinho sem var rekinn á dögunum.
Mourinho er ekki mikið fyrir það að halda í boltann hjá sínum liðum – allt annað en De Rossi sem horfir í svoleiðis taktík.
Ítalinn virtist skjóta aðeins á Mourinho eftir leik gærdagsins og gagnrýndi spilamennsku liðsins undir stjórn Portúgalans.
,,Ég var mjög hrifinn af fyrri hálfleik en ef þú ert að gera sömu hlutina án þess að vera í takti við leikinn þá er erfitt að færa boltann hratt, þá lendirðu í vandræðum ,“ sagði De Rossi.
,,Ég er sannfærður um að þú eigir að stjórna leiknum og halda boltanum, það er það fyrsta sem við byrjuðum að vinna í.“
,,Ef við erum að halda boltanum í rólegheitum þá getum við ekki klárað leikinn og getum sofnað. Við verðum of fyrirsjáanlegir og andstæðingarnir sjá í gegnum það sem við erum að gera.“