Það kom þónokkrum á óvart þegar lið Millwall í næst efstu deild Englands samdi við varnarmanninn Japhet Tanganga á dögunum.
Millwall var lengi í leit að miðverði en fékk Tanganga til sín á láni frá Tottenham þar sem hann er uppalinn.
Tangnagas var á mála hjá Augsburg í Þýskalandi fyrr á þessu tímabili en náði ekki að spila einn einasta deildarleik.
Joe Edwards er þjálfari Millwall en hann ræddi við bæði Jose Mourinho og Antonio Conte sem unnu með miðverðinum hjá Tottenham á sínum tíma.
,,Japh spilaði undir Mourinho og Conte hjá Tottenham og ég þekki þá báða. Þegar við byrjuðum viðræðurnar þá ræddi ég við þá tvo um hvernig strákur hann væri,“ sagði Edwards.
,,Þetta eru tveir þjálfarar sem vilja það allra besta frá sínum leikmönnum og hugsa mikið um sterkt hugarfar og andlegan styrk.“
,,Þeir töluðu báðir mjög vel um hann – þetta er strákur sem er með rétta hugarfarið. Það hjálpaði mikið og það eina sem var eftir var að skoða hvar hann væri líkamlega.“