Ítalska stórliðið AC Milan sér sennilega eftir því að hafa ekki klófest Enzo Fernandez sumarið 2022.
Það sumar gekk Fernandez í raðir Benfica frá River Plate í heimalandinu, Argentínu. Aðeins nokkrum mánuðum síðar var heimsmeistarinn seldur til Chelsea á 106 milljónir punda og varð dýrasti leikmaður í sögu Bretlands.
Tutto Mercato segir að Milan hafi boðist að kaupa Fernandez á 10 milljónir punda sumarið 2022, áður en kappinn gekk í raðir Benfica þar sem hann staldraði stutt við. Ákvað ítalska liðið hins vegar að láta það eiga sig.
Fernandez er búinn að spila 46 leiki fyrir Chelsea frá komu sinni fyrir nær sléttu ári. Hann er með fjögur mörk og þrjár stoðsendingar.