Íslenska karlalandsliðið mætir Hondúras í seinni vináttuleik sínum í janúarverkefninu sem nú stendur yfir í nótt.
Leikurinn fer fram klukkan 01:00 í nótt að íslenskum tíma (20:00 í kvöld að staðartíma) og er leikið á sama stað og eins marks sigur vannst gegn Gvatemala á laugardagskvöld, DRV PNK leikvanginum í Fort Lauderdale, Flórída.
Eins og fyrri leikurinn verður viðureignin við Hondúras í beinni útsendingu (og opinni dagskrá) á Stöð 2 sport.
Íslenska liðið hefur æft við góðar aðstæður á æfingasvæði Inter Miami við keppnisvöllinn. Nokkur þúsund stuðningsmenn Gvatemala héldu uppi góðri stemmningu á leiknum síðasta laugardag og er búist við svipuðum fjölda og sambærilegu andrúmslofti í leiknum gegn Hondúras.
Ísland hefur ekki áður mætt Hondúras í A-landsliðum karla. Íslenska liðið er í 71. sæti á styrkleikalista FIFA og Hondúras er í 76. sæti.