Ungverjar unnu þægilegan 33-25 sigur og fara með tvö stig inn í milliriðla. Strákarnir okkar fara án stiga í þá og geta þakkað nokkuð óvæntum sigri Svartfellinga á Serbum í gær fyrir að vera yfirhöfuð með á mótinu enn þá.
Spekingar kepptust við að gagnrýna landsliðið eftir leik í gær og var frammistaðan til að mynda tekin fyrir í Þungavigtinni, þar sem Mikael Nikulásson kom með áhugaverða samlíkingu.
„Ég líki þessu við Chelsea í fótboltanum. Þú veist ekkert hverjir eru inn á og það nær enginn takti. Auðvitað eiga menn að gera betur en það er enginn taktur í þessu. Við erum bara litlir og aumir á móti svona gaurum. Mig grunaði að við yrðum í vandræðum í þessum leik og það varð svo,“ sagði Mikael í þrumuræðu.
„Leikmenn eru ekki að ráða við þessa fullu höll. Það vantar algjörlega leiðtoga í þetta lið, einhvern sem getur stigið upp,“ sagði hann enn fremur.
Næsti leikur Íslands er gegn Þýskalandi í fyrsta leik liðanna í milliriðli annað kvöld.