Það er enn óljóst hvort Birkir Már Sævarsson spili með Val á komandi leiktíð hér heima eða ekki.
Í haust var sagt frá því að Birkir og fjölskylda hann hefðu keypt sér hús í Svíþjóð, þar sem hann var áður atvinnumaður.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var spurður út í stöðuna í sjónvarpsþætti 433.is í vikunni.
„Hefðir þú spurt mig fyrir mánuði hefði ég sagt að það væru mjög litlar líkur. Núna eru meiri líkur en ég veit það samt ekki,“ sagði Arnar.
„Þau eru búin að kaupa úti og hann var að skoða ákveðið dæmi þar. Það kom bakslag í það og þá komum við aftur inn í myndina. Þetta er búið að vera svona fram og til baka,“ sagði Arnar enn fremur en hann telur að málið skýrist fljótlega.