Liverpool verður án þeirra Mohamed Salah og Wataru Endo í næstu leikjum þar sem þeir eru að fara á stórmót með sínum landsliðum. Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, vonast til að þeir detti út sem fyrst.
Salah er á leið í Afríkukeppnina með egypska landsliðinu og Endo í Asíukeppnina með Japan. Sá fyrrnefndi er einn allra mikilvægasti leikmaður Liverpool en fari þeir í úrslit með sínum landsliðum verða þeir frá þar til 17. febrúar hið minnsta.
„Ég sagði við þá að ef ég myndi óska þeim góðs gengis væri ég að ljúga,“ sagði Klopp léttur á blaðamannafundi en hélt svo áfram.
„Gangi þeim vel. Vonandi koma þeir heilir til baka. Ég er viss um að við getum leyst þá af.“
Liverpool heimsækir Arsenal í sínum næsta leik í enska bikarnum. Fer hann fram á sunnudag.