Olivier Giroud, framherji AC Milan, gæti farið til Bandaríkjanna í sumar. Þetta kemur fram í ítalska miðlinum La Gazzetta dello Sport.
Hinn 37 ára gamli Giroud hefur verið hjá Milan í tvö og hálft ár en samningur hans rennur út í sumar.
Hann getur því farið frítt þá en samkvæmt fréttum mun hann taka ákvörðun um framtíð sína í vor.
Bandaríkin er áfangastaður sem kemur til greina og Giroud greinilega ekki á þeim buxunum að hætta í fótbolta.
Giroud hefur á ferlinum gert garðinn frægan með liðum eins og Arsenal og Chelsea, en hann vann Meistaradeildina til að mynda með síðarnefnda liðinu árið 2021.