Samkvæmt Viðskiptablaðinu mun Gylfi Þór Sigurðsson þéna 50 milljónir króna fyrir samning sinn við Lyngby í Danmörku.
Gylfi gerði eins árs samning við Lyngby síðasta haust og er samkvæmt blaðinu með 50 milljónir króna í árslaun.
Gylfi byrjaði vel með Lyngby en hefur verið meiddur undanfarnar vikur og hefur nú þurft að draga sig út úr íslenska landsliðinu sem er á leið til Bandaríkjanna.
„Gylfi var í fjölda ára langlaunahæsti íslenski atvinnumaðurinn og var síðustu árin með um 850 milljónir í árslaun hjá Everton. Hann hefur nú um 50 milljónir í árslaun hjá Lyngby og launin því miklu lægri en áður eins og gefur að skilja,“ segir í frétt Viðskiptablaðsins.
Vonir standa til um að Gylfi geti fundið taktinn á næstu vikum og verið klár í leiki með íslenska landsliðinu í mars þar sem liðið fer í umspil um laust sæti á Evrópumótið. Mætir liðið Ísrael í undanúrslitum.