Samkvæmt The Athletic var flestum leikmönnum Birmingham nokkuð vel við Wayne Rooney en hann er þó sagður hafa verið latur á æfingasvæðinu.
Rooney tók við Birmingham í haust og þá var liðið í sjötta sæti ensku B-deildarinnar. Var John Eustace mjög óvænt rekinn til að koma Rooney að.
Undir stjórn Rooney vann Birmingham aðeins tvo af fimmtán leikjum sínum og situr nú í 20. sæti.
Var Rooney rekinn í gær. „Rooney var ekki óvinsæll á meðal leikmanna þrátt fyrir úrslitin og orð hans og gagnrýni opinberlega,“ segir í grein The Athletic.
„Rooney hafði efast um andlegan styrk leikmannahópsins og gæði þeirra. Sumir urðu ósáttir með þau.“
Segir einnig í grein The Athletic að Rooney hafi lítið lagt fram á æfingasvæðinu og látið aðstoðarmenn sína sjá um flestar æfingarnar.