Emily Pellegrini er ansi vinsæl samfélagsmiðlastjarna og hefur hún fengið mikla athygli frá stjörnum úr íþróttalífinu. Ekki er þó allt sem sýnist, Emily er ekki raunveruleg.
Emily hefur verið kölluð „kynþokkafyllsta kona heims“ og er hún með 135 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún var hins vegar búin til af gervigreind en eigandi miðla hennar græðir á tá og fingri.
„Ég bað Chat GTP um að búa til draumakonu hins almenna karlmanns og hún er með brúnt hár og langa leggi. Þannig ég hafði hana þannig. Mig langaði að hún væri viðkunnanleg og aðlaðandi. Ég vildi hafa hana eins raunverulega og mögulegt er,“ sagði eigandi miðla Emily við Daily Mail á dögunum.
Það má segja að það hafi tekist nokkuð vel til. Emily er ansi raunveruleg.
Það sem meira er láta margir blekkjast og bjóða Emily á stefnumót og hvaðeina. Oft eru það ríkir menn, til dæmis íþróttamenn.
„Það hafa margir samband við hana. Það eru mjög frægir einstaklingar, knattspyrnumenn, milljarðamæringar, MMA bardagakappar og tennisstjörnur,“ sagði eigandi miðla Emily.
Nú hefur einstaklingurinn sem bjó Emily til einnig stofnað aðgang fyrir „systur“ hennar, Fiona Pellegrini. Er sá aðgangur kominn með 30 þúsund fylgjendur á nokkrum vikum.