Raphael Leao, leikmaður AC Milan, hefur verið orðaður við mörg lið undanfarna mánuði en hann hefur staðið sig gríðarlega vel á Ítalíu.
Leao hefur staðfest það að Cristiano Ronaldo sé hans fyrirmynd en hann spilaði um tíma með Juventus í Serie A.
Ronaldo gerði þó garðinn frægan með Manchester United og Real Madrid en leikur í dag með Al-Nassr í Sádi Arabíu og er 38 ára gamall.
Portúgalinn hefur oft verið ásakaður um að vera sjálfselskur á vellinum en hann hugsar mikið um að skora mörk og endaði árið 2023 sem markahæsti leikmaður heims.
Leao er landi Ronaldo og lítur upp til hans en segist ekki vera eins sjálfselskur og fyrirmynd sín sem er á lokametrum ferilsins.
,,Hann er fyrirmyndin mín en ég er ekki sjálfselskur. Ég get skorað mörk en einnig lagt upp,“ sagði Leao.
,,Ég reyni að gefa á mína liðsfélaga og í hæsta gæðaflokki þá tala tölurnar sínu máli, horfðu bara á Kylian Mbappe, Lionel Messi og Erling Haaland.“