
Sérfræðingur í líkamstjáningu efast um ummæli Harry Kane í gær eftir að hann var spurður út í orðróma um hugsanleg skipti til Manchester United í sumar.
Kane gekk í raðir Bayern Munchen frá Tottenham í sumar en hann var einnig orðaður við United. Hann svaraði spurningum um það í gær en Bayern og United mætast í kvöld.
Þar sagði Kane að hann átti sig á því að United sé stórt félag en að hann hafi bara viljað Bayern eftir að þýska félagið kom að borðinu.
Darren Stanton, reynslumikill sérfræðingur um líkamstjáningu, efast um þessi ummæli kappans en fjallað er um það í enskum miðlum.
„Líkamstjáning hans segir mér að hann hafi viljað fara til Manchester United. Vinstri öxl hans hreyfðist upp og niður þegar hann talaði um að önnur félög hafi viljað fá hann. Þetta er eitthvað sem við gerum þegar við viljum sína að okkur standi á sama um eitthvað.
Hann hreyfði hins vegar bara aðra öxlina svo hann reyndi með hálfum hug að sannfæra okkur um að honum stæði ekki á sama. Þetta er að mínu mati rautt flagg hvað varðar heiðarleika hans gagnvart því að vera sáttur þar sem hann er og að hann sé pirraður yfir að hafa ekki komist annað,“ segir Stanton.
Hann heldur áfram og er með fleiri kenningar um ummæli Kane.
„Þegar fólk segir „Ef ég á að vera hreinskilinn“ í upphafi setningar eru góðar líkur á að það sé að fara að ljúga. Þetta var eitt það fyrsta sem Kane sagði þegar hann ræddi möguleika hans í sumar. Þetta segir mér að það sem hann sagði er ekki satt,“ segir Stanton.
„Hann reynir að fjarlægja sjálfan sig úr myndinni þegar hann ræðir viðræður Tottenham og Bayern Munchen í sumar. Augabrúnir hans eru niðri og hann sýnir vonbrigði með niðrstöðuna.
Öll merkin voru neikvæð. Ef þú myndir slökkva á hljóðinu og horfa á Kane tala um að hafa farið til Bayern Munchen í stað annars félags myndir þú halda að hann væri að fá slæm tíðindi.“