Cristiano Ronaldo á enn þó nokkur ár eftir í boltanum ef marka má orð Roberto Martinez, landsliðsþjálfara Portúgal.
Hinn 38 ára gamli Ronaldo er enn í fullu fjöri með Al-Nassr og portúgalska landsliðinu. Hann spilaði sinn 200. landsleik á ferlinum gegn Íslandi í sumar og eru þeir orðnir 205 talsins.
„Þegar ég tók við var hann nálægt 200 landsleikjum, eitthvað sem engum hafði tekist áður,“ sagði Martinez í viðtali við Freddie Ljungberg á dögunum.
„Ég spurði hann hvort 200 landsleikir væru eitthvað sem heillaði hann en hann sagði að 250 landsleikir gerðu það,“ bætti hann við.
Ljóst er að þó Ronaldo myndi spila alla leiki til og með HM 2026 yrði það ekki nóg til að ná 250 leikjum og þyrfti kappinn því að vera að aðeins lengur en það.
Ronaldo hefur þó áður lýst yfir áhuga á að vera hjá Al-Nassr til 2027 og verði hann í landsliðinu allan þann tíma gæti hann náð þessum fjölda.
“250 caps interests me”@Cristiano had a surprise for Roberto Martinez when he took over as Portugal coach. pic.twitter.com/PjxFAI9mP7
— Freddie Ljungberg (@freddie) December 22, 2023