Hirving Lozano hefur tjáð sig um erfiða tíma hjá Napoli en hann ákvað að yfirgefa félagið fyrr á þessu ári.
Lozano stóð sig ágætlega með Napoli um tíma en allt fór úrskeiðis eftir að Gennaro Gattuso tók við sem stjóri liðsins.
Gattuso hafði í raun ekki hugmynd um hver Lozano væri og fékk Mexíkóinn afskaplega takmarkað að spila á einum tímapunkti.
Lozano spilaði samtals 155 leiki fyrir Napoli og skoraði 30 mörk en hann hélt aftur til Hollands og samdi við PSV í sumar.
Lozano var ekki hrifinn af því að starfa undir Gattuso sem entist þó ekki lengi í starfi sem þjálfari liðsins.
,,Hann þekkti mig ekki neitt og vissi ekki hvar ég spilaði á vellinum. Hann spurði mig aldrei út í neitt,“ sagði Lozano.
,,Þú upplifir tíma sem knattspyrnumaður þar sem þú hugsar með þér að hlutirnir séu að ganga upp en það gerðist aldrei.“
,,Þetta varð svo slæmt að ég grét fyrir framan konuna mína. Þú áttar þig á að þú sért töluvert betri en margir aðrir leikmenn þarna og veltir því fyrir þér af hverju þú fáir ekkert að spila.“