Manchester United borgaði mun meira fyrir Antony í fyrra en starfsmenn innan félagsins höfðu metið hann á. The Athletic fjallar um málið.
Antony gekk í raðir United fyrir 86 milljónir punda sumarið 2022 en hefur engan veginn staðið undir væntingum og einnig verið til vandræða utan vallar.
Hann kom frá Ajax en stjóri United, Erik ten Hag, hafði verið með honum þar.
Njósnarar innan raða United skoðuðu Antony áður en hann var fenginn til félagsins og töldu þeir hann um 25 milljóna punda virði.
United yfirborgaði því all hressilega fyrir kantmanninn ef marka má þetta.
Ajax var alls ekki til í að hleypa leikmanninum frá sér ódýrt og á endanum borgaði United himinhátt verð fyrir hann.