Jose Mourinho, stjóri Roma, var ansi harðorður í garð Pedro, leikmanns Lazio, eftir leik liðanna í gær.
Um var að ræða ansi leiðinlegan fótboltaleik en honum lauk með markalausu jafntefli í Serie A.
Mourinho elskar að skapa fyrirsagnir á Ítalíu og baunaði á sinn fyrrum leikmann, Pedro, en þeir unnu saman hjá Chelsea.
Mourinho vill meina að Pedro hafi reynt að fiska allt of mörg brot í viðureigninni og hafi verið duglegur að kasta sér í grasið.
,,Pedro er stórkostlegur leikmaður en hann gæti einnir verið sundmaður því hvernig hann dýfir sér er magnað,“ sagði Mourinho.
Maurizio Sarri, stjóri Lazio, var spurður út í ummæli Mourinho en neitaði að svara á móti.