Stuðningsmenn Manchester United eru skiljanlega pirraðir eftir tap gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.
United komst 0-2 yfir í gær en leikurinn breyttist við afar umdeilt rautt spjald sem Marcus Rashford fékk seint í fyrri hálfleik og fór FCK að lokum með 4-3 sigur. Enska liðið er á botni síns riðils í Meistaradeildinni eftir úrslitin.
„Við byrjuðum mjög vel og stjórnuðum leiknum fram að rauða spjaldinu. Ef þú horfir ekki í úrslitin heldur fyrstu tuttugu mínúturnar gerðum við nokkuð vel,“ sagði framherjinnm Rasmus Hojlund, sem gerði tvö mörk í gær, eftir leik.
Ummælin fóru öfugt ofan í stuðningsmenn United eins og enskir miðlar vekja athygli á nú í morgunsárið.
„Fótboltaleikir eru greinilega 20 mínútna langir núna,“ skrifaði einn stuðningsmaður og annar tók í svipaðan streng: „Til hamingju með að vera meistarar fyrstu tuttugu mínútnanna.“
„Þetta eru vandræðalegustu ummæli sem ég hef heyrt frá fótboltamanni í viðtali,“ skrifaði annar stuðningsmaður á samfélagsmiðla.
United á eftir að mæta Bayern Munchen og Galatasaray í riðlakeppninni og ljóst að á brattann er að sækja fyrir liðið.