Eiður Benedikt Eiríksson hefur verið ráðinn inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla hjá Breiðabliki og hóf hann störf í byrjun þessarar viku.
Félagið staðfestir þetta með fréttatilkynningu, en Eiður kemur til með að aðstoða Halldór Árnason, aðalþjálfara.
Eiður mun þar að auki koma að þjálfun og greiningum í starfi yngri flokka Breiðabliks í samstarfi með þjálfurum 4. – 2. flokks drengja.
Eiður var nú síðast í þjálfarateymi KA sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, en hann hefur einnig starfað sem þjálfari kvennaliðs Vals og um stutt skeið hjá Þrótti Vogum.
Eiður verður á hliðarlínunni þegar Breiðablik tekur á móti Gent á Laugardalsvelli í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar i kvöld.