Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, er einn af þeim sem hafa verið orðaður við formannnsstarfið. Í þættinum Mín Skoðun með Valtý Birni á Brotkast.is var Börkur spurður út í það hvað góður formaður þyrfti að hafa.
„Þú þarft að hafa ákveðna forystu- og leiðtogahæfileika. Þú þarft að vera góður í samskiptum og átta þig á því hvernig hjarta- og æðakerfið virkar í íslenskum fótbolta, sem eru félögin. Þú þarft að vera í góðum og miklum samskiptum við félögin, stór og smá, skilja hvað er í gangi þar bæði í rekstri, utanumhaldi og hvaðan þessi félög koma,“ sagði Börkur og hélt áfram.
„Þú þarft að vera góður að koma fram fyrir hönd knattspyrnusambandsins og þú mátt ekki vera ákvörðunarfælinn. Þú þarft að geta tekið ákvarðanir, vinsælar sem óvinsælar og staðið við þær. Ég þekki það frá starfinu í Val að þegar þú tekur ákvarðanir ertu stundum einn, það hlaupa allir í burtu ef ákvörðunin er óvinsæl. En ef leikur vinnst og allir eru ánægðir með það sem þú ert að gera koma allir og vilja fá kampavínsdreitilinn.“
Starf formanns KSÍ er, eins og sést hefur síðustu ár, oft í brennidepli og mikið í umræðunni.
„Þú þarft að vera sterkur persónuleiki og þola mikla gagnrýni. Þú mátt ekki taka því persónulega. Þetta er kannski það helsta sem þú verður bara að hafa ef þú ætlar að vera farsæll leiðtogi fótboltans á Íslandi því þetta er hörkupólítík og mjög óeigingjarnt starf. Það eru margir sem hafa skoðanir á þér sem persónu og því sem þú ert að gera,“ sagði Börkur, en brotið þar sem þetta er rætt er hér að neðan.