Frank Lampard segir að hann hafi viljað fá Jude Bellingham til Chelsea er hann var stjóri þar.
Lampard, sem er auðvitað fyrrum leikmaður Chelsea, var stjóri liðsins frá 2019 til 2021, svo reyndar aftur um stutt skeið í byrjun þessa árs sem bráðabirgðastjóri.
Áður en Bellingham gekk í raðir Dortmund frá Birmingham árið 2020 vildi Lampard fá hann til Chelsea.
„Þegar ég var stjóri Chelsea langaði mig mjög að fá Jude Bellingham. Ég fékk það ekki í gegn. Það var ekki vilji til að eyða 20 milljónum punda í svo ungan leikmann,“ segir Lampard.
Að lokum fór Bellingham til Dortmund og stóð sig frábærlega þar. Í sumar var hann svo keyptur til Real Madrid á 114 milljónir punda.
Bellingham hefur farið frábærlega af stað með Real Madrid, skorað 13 mörk í 14 leikjum. Þá var hann valinn besti ungi leikmaðurinn á Ballon d’Or verðlaunahátíðinni á dögunum.