Mikel Arteta, stjóri Arsenal, sér ekki eftir því að hafa látið dómarana heyra það eftir tap liðsins gegn Newcastle um helgina.
Liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni og vann Newcastle 1-0 sigur. Eina mark leiksins var afar umdeilt og eftir leik hjólaði Arteta í dómgæsluna í ensku úrvalsdeildinni og að hana þyrfti að bæta til að sæma bestu deild í heimi.
Arsenal gaf svo út yfirlýsingu þar sem félagið lýsti yfir stuðningi við Arteta og tók undir hans ummæli eftir leik.
„Ég myndi gera þetta aftur og félagið einnig. Við munum gera það þar til búið er að bæta þetta. Það er okkar skylda að segja hvað okkur finnst,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins gegn Sevilla annað kvöld.
„Það er mín skylda að standa fyrir framan ykkur og myndavélarnar og segja hvað mér finnst um það sem gerist í leikjum. Það er það sem ég gerði. Ég var mjög opinskár um hvað mér fannst og hvernig mér fannst ákvarðanir sem voru teknar hafa áhrif á leikinn. Það er mín skylda að verja mína leikmenn og félagið á allan mögulegan máta.
Svona er ég bara. Svona hlutir gerast ekki á einni nóttu. Þegar ég segi eitthvað svona er það af því ég hef mjög sterka skoðun á einhverju. Þegar ég ræði við leikmenn mína ræði ég hvernig við getum bætt okkur.“