Gera má ráð fyrir því að Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands kynni sinn sterkasta landsliðshóp til þessa núna í vikunni. Um er að ræða hóp sem mætir Slóvakíu og Portúgal á útivelli í Evrópumótinu.
Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður Burnley missti af síðasta verkefni vegna meiðsla en hann er komin á fulla ferð með Burnley og ætti að koma inn aftur.
Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Sverrir Ingi Ingason og Alfreð Finnbogason ættu allir að vera á sínum stað.
Aron Einar spilar ekki með Al-Arabi þessa dagana en er heill heilsu og Hareide vill hafa hann í hópnum.
Hákon Arnar Haraldsson hefur glímt við meiðsli hjá Lille í Frakklandi en spilaði örfáar mínútur í jafntefli gegn Marseille um helgina og ætti að vera klár.
Verður þetta í fyrsta sinn sem Hareide getur valið alla þessa leikmenn á sama tíma.
Allir helstu leikmenn virðast því vera í boði. Óvíst er hvort Albert Guðmundsson leikmaður Genoa geti verið með en mál hans er enn hjá ákærusviði lögreglunnar á Íslandi.
Reglur KSÍ eru þannig að Hareide má ekki velja mann í hóp sinn þegar mál er á borði lögreglu en búist er við niðurstöðu í máli Alberts á næstu dögum.