„Ég býst við að missa Pétur (Bjarnason) vestur,“ sagði Rúnar, aðspurður hvort hann búist við því að missa einhverja leikmenn frá því á síðasta tímabili.
Pétur kom til Fylkis frá Vestra í fyrra en er nú á heimleið. Framherjinn er þó samningsbundinn Fylki í tvö ár til viðbótar.
„Hann er að flytja vestur og lítið sem er hægt að gera í því. Hann ákvað að taka töskuna með sér vestur og fjölskylduna.
Pétur gerði þriggja ára samning við okkur í fyrra og Vestri þarf bara að kaupa hann. Hann stóð sig vel og er búinn að fá góða reynslu í Bestu deildinni. Vestri þarf að taka upp veskið, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Rúnar.
Rúnar var einnig spurður út í Arnór Gauta Jónsson sem er að verða samningslaus.
„Arnór Gauti verður áfram. Það á bara eftir að skrifa undir það,“ sagði Rúnar um það.
Loks barst Ólafur Karl Finsen í tal en hann gekk í raðir Fylkis í fyrra. Býst Rúnar við að hann leggi skóna á hilluna.
„Ég reikna með að Óli Kalli hætti þessu bara. Ef hann vill koma aftur til okkar í febrúar er hann bara velkominn.“