Það eru fáir ef einhverjir sem eru vinsælli í ensku úrvalsdeildinni en þjálfarinn Ange Postecoglou sem starfar hjá Tottenham.
Postecoglou tók við Tottenham í sumar og hefur gert frábæra hluti en liðið er að berjast um toppsætið í ensku úrvalsdeildinni.
Ástralinn hefur vakið verulega athygli á blaðamannafundum síðan hann tók við og bauð upp á enn einn molann í gær.
Ónefndur blaðamaður var mættur á þennan fund en hann hafði nýlega heimsótt heimabæ Postecoglou í Ástralíu og ferðaðist þangað með eiginkonu sinni.
Það kom blaðamanninum verulega á óvart þegar hann áttaði sig á því að Postecoglou hafi vitað af heimsókninni.
,,Velkominn aftur,“ sagði Postecoglou og brosti. ,,Þú getur farið með eiginkonu þína á mun betri staði, hún á mikið inni hjá þér vinur,“ bætti Ástralinn við.
Þessi ágæti blaðamaður var furðulostinn en hann ákvað að skella sér til Prahran í Melbourne sem er heimabær Postecoglou.