Ari Freyr Skúlason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna þegar yfirstandandi leiktíð í Svíþjóð er lokið.
Hinn 36 ára gamli Ari Freyr er leikmaður Norrköping. Hann mun þó ekki yfirgefa félagið því hann mun þjálfa þar og ná sér í þjálfaragráður.
Ari Freyr er uppalinn hjá Val en á ferli sínum í atvinnumennsku hefur hann spilað með liðum á borð við Lokeren, OB og Hacken, auk Norrköping.
Þá á bakvörðurinn knái að baki 83 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Var hann hluti af gullaldarliðinu svokallaða.