Erik ten Hag, stjóri Manchester United, lét leikmenn sína sitja í þögn og hlusta á leikmenn Manchester City fagna eftir tapið í nágrannaslagnum um helgina.
City vann þægilegan 0-3 sigur á United á sunnudag og Ten Hag er sagður hafa verið brjálaður eftir leik.
Breska götublaðið The Sun segir frá því að Hollendingurinn hafi látið leikmenn sitja í búningsklefanum eftir leik og hlusta á nágranna sína hinum megin við ganginn fagna. Vildi hann einnig að þeir heyrðu fagnaðarlæti stuðningsmanna City.
Eftir það hraunaði Ten Hag svo yfir leikmenn sína.
Ætlaði hann að gefa leikmönnum frí hefðu þeir unnið City. Það varð augljóslega ekki af því. Þess í stað fá leikmenn heimavinnu, myndbönd sem þeir þurfa að horfa á og sjá hvað betur mætti fara.
United er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir tíu leiki.