„Ég held það sé mikið meira að hjá þessu félagi en við nokkurn tímann áttum okkur á,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarlandsliðsþjálfari um gengi United í Vellinum á Símanum Sport í gær.
„Viljaleysið til að taka á þessum City-mönnum. Þetta er gríðarlegur nágrannaslagur og það er enginn vilji.“
Eiður Smári Guðjohnsen var með honum í setti og telur hann að stjóri United, Erik ten Hag, hefði átt að taka fleiri sénsa í leiknum í gær.
„Hann sér hvernig leikur er að þróast, bættu framherja við. Ekki taka hann út af. Þó svo að Hojlund hafi ekki átt frábæran leik taktu þá smá séns. Þú hefur engu að tapa lengur.“
Jóhannes taldi United á réttri leið í byrjun árs en botnar ekki í hvar allt saman fór úrskeiðis.
„Þetta er eiginlega bara ótrúlegt. Það er í janúar á þessu ári sem þeir vinna City. Maður hafði mikla trú á Ten Hag inn í þetta verkefni. Það var kominn agi og ágætis heildarholning á liðið. Þeir voru að spila ágætis fótbolta, gátu varist djúpt og pressað. Maður skilur ekki hvernig þeir hafa náð að klúðra þessu.
Þessir leikmenn sem þeir fengu hafa ekki gert neitt til að lyfta þessu á hærra plan. Þeir hafa frekar dregið niður standardinn ef eitthvað. Það eru allt of margir leikmenn í þessu liði sem hafa ekki lappir til að hlaupa á einhverri úrvalsdeildarákefð.“
Eiður segir að óvissa á bak við tjöldin heilli ekki, en eignarhald United hefur verið í brennidepli.
„Svo vitum við ekkert hvað er að gerast á bak við tjöldin. Hver er að kaupa hvaða hlut eða stjórna hverju. Ég held að Glazer fjölskyldan sé ekki sú vinsælasta í Manchester þessa dagana. Þannig það er bara rótleysi á öllu og það færir sig inn á völlinn,“ sagði Eiður, en hann og Jóhannes eru sammála um að Ten Hag verði ekki mikið lengur í starfi knattspyrnustjóra Manchester United.