Íslenska kvennalandsliðið tók á móti því danska í Þjóðadeildinni í kvöld. Úr varð hörkuleikur.
Stelpurnar okkar sköpuðu sér nokkur afbragðs tækifæri í fyrri hálfleik og voru heilt yfir betri í honum. Glódís Perla Viggósdóttir komst næst því að skora þegar hún skallaði í slána.
Staðan í hálfleik var þó markalaus.
Það átti eftir að koma í bakið á íslenska liðinu að nýta ekki færin því á 71. mínútu kom Amalie Vangsgaard Dönum yfir eftir frábæra fyrirgjöf Sofie Svava.
Ísland leitaði að jöfnunarmarki en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 0-1 fyrir Dani þrátt fyrir fínasta leik hjá Íslandi.
Ísland er því áfram með 3 stig eftir þrjá leiki í Þjóðadeildinni. Danir eru með fullt hús stiga á toppnum. Þjóðverjar eru með 6 stig en Wales er enn án stiga.