Átta leikir fóru fram í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Um leiki í 3. umferð í riðlum A-D var að ræða.
Í A-riðli vann Manchester United nauman en afar mikilvægan sigur á FC Kaupmannahöfn. Leikið var á Old Trafford en fyrir kvöldið var United með 0 stig.
Harry Maguire skoraði eina mark leiksins á 72. mínútu. Það urðu senur í blálok uppbótartímans þegar Andre Onana varði víti Jordan Larsson.
Bayern Munchen er með fullt hús stiga í þessum sama riðli en liðið vann 1-3 sigur á Galatasaray í kvöld þar sem Kingsley Coman, Harry Kane og Jamal Musiala gerðu mörkin.
Arsenal þurfti einnig á stigum að halda í B-riðli er liðið heimsótti Sevilla.
Það tókst heldur betur því Gabriel Martinelli kom þeim yfir í lok fyrri hálfleiks áður en Gabriel Jesus bætti við marki á 53. mínútu. Heimamenn minnkuðu muninn en nær komust þeir ekki.
Í C-riðli er Real Madrid með fullt hús en liðið vann 1-2 sigur á Braga. Rodrygo og hinn magnaði Jude Bellingham gerðu mörk liðsins. Napoli er áfram í öðru sæti eftir sigur á Union Berlin.
Hér að neðan má sjá úrslit kvöldsins
A-riðill
Galatasaray 1-3 Bayern Munchen
Manchester United 1-0 FC Kaupmannahöfn
B-riðill
Lens 1-1 PSV
Sevilla 1-2 Arsenal
C-riðill
Braga 1-2 Real Madrid
Union Berlin 0-1 Napoli
D-riðill
Inter 2-1 RB Salzburg
Benfica 0-1 Real Sociedad