Casemiro sér eftir því að hafa gengið í raðir Manchester United í fyrra samkvæmt spænska blaðinu Nacional.
Brasilíski miðjumaðurinn gekk í raðir United sumarið 2022 frá Real Madrid og átti mjög gott fyrsta tímabil. Var hann lykilmaður í liðinu sem hafnaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og vann enska deildabikarinn.
Casemiro hefur hins vegar farið illa af stað á þessari leiktíð.
Nacional segir að hjá United séu menn afar óánægðir með Casemiro á þessari leiktíð. Þá kemur einnig fram að hann sjái eftir því að hafa yfirgefið Real Madrid í fyrra til að ganga til liðs við óstabílt lið eins og United er.
Casemiro er 31 árs gamall og var í níu ár hjá Real Madrid áður en hann gekk í raðir United í fyrra. Hann vann spænsku deildina þrisvar og Meistaradeildina fimm sinnum á tíma sínum í Madríd, svo eitthvað sé nefnt.