Íþróttavikan kemur út alla föstudaga á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góðan gest og ræða það helsta úr heimi íþrótta. Að þessu sinni var gesturinn fótboltaþjálfarinn og hlaðvarpsstjarnan Viktor Unnar Illugason.
Viktor hóf á dögunum störf hjá Val. Þar þjálfar hann 2. og 4. flokk karla auk þess að fylgja ungum leikmönnum upp í meistaraflokk og starfa með þeim þar.
Starfið hjá Val leggst afar vel í Viktor sem segir mikinn metnað hjá félaginu.
„Ég var að ná mér í tvær bækur í gær þar sem Arnar Grétarsson (þjálfari meistaraflokks karla) er búinn að skrifa niður sína hugmyndafræði. Svo er hann með aðra bók þar sem hann er með æfingar út frá þessari hugmyndafræði. Svo er önnur bók þar sem hver staða fyrir sig er tekin út frá hugmyndafræðinni,“ segir Viktor.
„Mér finnst þetta geggjað og ætti eiginlega að vera hjá öllum félögum á Íslandi, ekki endilega frá meistaraflokksþjálfaranum heldur ættu klúbbarnir að vera með eitthvað svona, þú lest þetta og veist hvað klúbburinn stendur fyrir.“
Umræðan í heild er í spilaranum.