Kylian Mbappe er að hallast að því að fara á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain næsta sumar.
Framtíð kappans hefur verið í lausu lofti lengi en hann framlengdi samning sinn til tveggja ára vorið 2022.
Samkvæmt Marca sér hann mikið eftir þeirri ákvörðun en hann er að verða samningslaus og íhugar að fara frítt í sumar. Hefur hann verið sterklega orðaður við Real Madrid.
Mbappe setti allt í háaloft í sumar þegar hann opinberaði að hann myndi ekki virkja ákvæði í samningi sínum um að framlengja hann til 2025. Var hann í kjölfarið settur í frystikistuna.
Eftir algjöra U-beygju var hann hins vegar tekinn aftur inn í liðið og sögðu einhverjir miðlar frá því að hann lofaði að fara ekki frítt frá PSG.
Miðað við nýjustu fréttir gæti það þó gerst næsta sumar þegar samningur leikmannsins rennur út.