Íslenska karlalandsliðið mætir Lúxemborg í undankeppni EM 2024 í kvöld. Leikurinn var til umræðu í Íþróttavikunni sem kemur út á 433.is og í Sjónvarpi Símans í kvöld. Þar er fjölmiðlastjarnan Tómas Steindórsson gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar.
Íslenska liðið er komið með bakið upp við vegg eftir slæma byrjun í riðlinum en liðið vann þó Bosníu í síðasta leik undankeppninnar.
„Ef við vinnum Lúxemborg, svo vinnum við auðvitað Liechtenstein, er þá ekki kominn smá meðbyr aftur?“ spurði Helgi í þættinum.
„Ef við vinnum Lúxemborg og sýnum góða frammistöðu þá er kominn meðbyr,“ sagði Hrafnkell, en bæði hann og Tómas spá Íslandi sigri í kvöld.
„Með tapi færum við svolítið aftur á byrjunarreit eftir Bosníusigurinn,“ skaut Helgi inn í en það er nauðsynlegt að vinna í kvöld.
Umræðan um landsliðið í heild er í spilaranum.