„Ég er svekktur. Mér fannst við eiga skilið að fá meira út úr þessum leik,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við Stöð 2 Sport eftir tap gegn Zorya Luhansk í Sambandsdeildinni í kvöld.
Um hörkuleik var að ræða en Úkraínumenn fóru með 0-1 sigur af hólmi frá Laugardal.
„Spilamennskan á köflum var frábær en kannski upp að síðasta þriðjungi og teignum hjá þeim liðum við fyrir slæmar ákvarðanir. Það sem þeir gera í þessum leik er að skapa sér færi úr skyndisóknum eftir að við pössum ekki nógu vel upp á boltann. Það er lærdómur.“
Breiðablik er enn án stiga eftir tvo leiki í riðlinum en Óskar telur liðið eiga skilið að vera með fleiri.
„Akkúrat á þessum degi upplifðum við okkur sterkari og því er svekkjandi að fá ekkert úr þessum leik. En það þýðir ekkert að hugsa út í það.“
Næsti leikur Blika í Sambandsdeildinni er 26. október gegn Gent á útivelli.