Vestri vann Aftureldingu í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar á laugardag og tryggði sér þar með sæti í efstu deild.
Aðstaða liðsins yfir veturinn er bág og það því oftar lengur í gang á vorin en önnur lið. Gras er á aðalvelli liðsins og hann því aðeins nothæfur yfir sumartímann. Margir hafa kallað eftir því að leggja þar nú gervigras.
„Ég þekki pólitíkina á Ísafirði ekki nógu mikið en mér þætti rosalega óeðlilegt ef þeir gera ekki neitt. Þeir verða að gera eitthvað,“ segir Valur Gunnarsson í Lengjudeildarmörkunum á 433.is.
„Maður hefur heyrt sögur af því að það sé íþróttafólk sem getur ekki búið þarna vegna aðstöðuleysis.“
Nú þegar Vestri er kominn í Bestu deildina telur Valur að kjörið sé að pressa á bæinn að leggja gervigras á aðalvöllinn.
„Það er um að gera að hamra járnið á meðan það er heitt.“