Nýr sjónvarpssamningur í Bretlandi gæti haft í för með sér miklar breytingar á leiktímum í ensku úrvalsdeildinni.
Sem stendur er spilaður einn leikur í hádeginu á laugardögum í Englandi, nokkrir leikir klukkan 15 og einn klukkan 17:30. Þá er yfirleitt spilað klukkan 14 og 16:30 á sunnudögum.
Þetta gæti hins vegar allt verið að breytast því Telegraph segir frá því að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar ætli að leggja til að fjórum leikjum verði sjónvarpað á sunnudögum.
Yrðu þeir spilaðir frá hádegi til 18:30.
Einnig er því velt upp hvort leikjum klukkan 15 á laugardögum gæti loks orðið sjónvarpað á næstunni í Bretlandi, en sem stendur má það ekki.
Ljóst er að með fleiri leikjum í sjónvarpinu á sunnudögum yrðu breytingar á leiktímum um helgar í ensku úrvalsdeildinni yfirhöfuð. Eins og gefur að skilja yrðu færri leikir á laugardögum.