Breiðablik mætir Struga á morgun í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Blikar geta skrifað söguna með því að fara inn í riðakeppnina og hefur fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson fulla trú á að þeir geri það.
Íslandsmeistararnir unnu fyrri leikinn úti í Norður-Makedóníu 0-1 við erfiðar aðstæður og mikið rok.
„Spennustigið er orðið mjög hátt nú þegar. Það er mikil tilhlökkun. Mér finnst vera góð stemning í hópnum og menn einbeittir á morgundaginn,“ segir Höskuldur við 433.is.
„Ég held að þetta verði öðruvísi leikur en úti. Hann var að skrýtin að mörgu leyti og að einhverju leyti ómarktækur. Það var meira spurning um að halda boltanum inn á þar en eitthvað annað.“
Höskuldur segir Blika hafa allt sem þarf til að klára verkefnið á morgun á heimavelli sínum.
„Hér líður okkur vel og höfum meiri stjórn á því sem við ætlum að gera. Við erum með forystu sem við verðum að fara vel með. Við getum ekki dottið í það að vernda hana. Við verðum að fara í leikinn til að vinna hann en að því sögðu verðum við að vera með góða áhættustýringu.“
En má kalla þetta dauðafæri til að komast í riðlakeppni í Evrópu fyrst íslenskra liða?
„Eflaust er hægt að setja það orð á þetta. Við gerum þá kröfu á okkur í ljósi þess hvernig staðan er í hálfleik að við ætlum að fara áfram. Það eina í stöðunni er að vera upp á okkur besta og þá klárum við dæmið.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.