Gabriel Jesus, leikmaður Arsenal, er klár í slaginn á ný. Þetta staðfesti Mikel Arteta á blaðamannafundi í dag.
Kappinn hefur misst af fyrstu leikjum Arsenal á leiktíðinni eftir að hafa gengist undir minniháttar aðgerð á hné. Um er að ræða sömu meiðsli og héldu Jesus frá stóran hluta síðustu leiktíðar.
Í gær bárust hins vegar fréttir af því að Jesus væri farinn að æfa á ný á undan áætlun. Miðað við orð Arteta er hann klár í leik Arsenal gegn Fulham á morgun.
„Ég var mjög ánægður. Það var mikið áfall að hann þyrfti að fara í aðgerð eftir undirbúningstímablið,“ sagði Arteta um endurkomu Jesus.
„Hann lítur vel út og er klár í slaginn,“ bætti hann við.
Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal, enda Jesus lykilmaður.