Logi er nýgenginn í raðir Stromsgodset í Noregi en Danijel er enn á mála hjá Víkingi. Kári og Sölvi eru goðsagnir hjá félaginu en þeir lögðu báðir skóna á hilluna eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2021.
„Þetta voru aðalkallarnir og menn tipluðu svolítið á tánum í kringum þá. Þeir voru ekkert að fela að þeir ættu klefann,“ segir Logi, sem lék með Kára og Sölva þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.
Logi segir að sem ungur leikmaður hafi hann ekki alltaf verið til í að hlusta á ráð reynsluboltanna.
„Ég fékk helvíti mikið að heyra það frá þeim á sínum tíma þegar maður nennti ekki að hlusta á þá.
Ég held að enginn leikmaður hafi farið meira í taugarnar á Kára en ég 2019. Þau voru ófá skiptin sem við rifumst. Það er ótrúlegt að ég hafi náð að höndla þetta en þetta gerði mig að þeim leikmanni sem ég er í dag.“
Logi heldur áfram og segir að þegar allt komi til alls hafi Kári og Sölvi gert mikið fyrir sig.
„Ég ætla ekki að gefa þeim allan heiðurinn en án þeirra væri ég ekki sá leikmaður sem ég er í dag.“
Sölvi er í dag aðstoðarþjálfari Víkings en Kári er yfirmaður knattspyrnumála.