Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld.
Fjölnir tók á móti Grindavík í stórleik. Það fór svo að heimamenn gjörsamlega völtuðu yfir gestina. Máni Austmann Hilmarsson kom þeim yfir snemma leiks áður en Bjarni Gunnarsson tvöfaldaði forskotið.
Hans Viktor Guðmundsson og Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson bættu við mörkum í seinni hálfleik áður en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson klóraði í bakkann fyrir Grindavík. Axel Freyr Harðarson innsiglaði svo 5-1 stórsigur Fjölnis.
Liðið er í þriðja sæti og komið með annan fótinn í umspilið um sæti í efstu deild. Grindavík er hins vegar nú 4 stigum frá umspilinu og aðeins 3 stigum fyrir ofan fallsæti.
Botnlið Ægis tók þá á móti Gróttu. Gabríel Hrannar Eyjólfsson kom gestunum yfir af vítapunktinum á 13. mínútu en skömmu síðar jafnaði Atli Rafn Guðbjartsson fyrir Ægi.
Á 25. mínútu kom Brynjólfur Þór Eyþórsson heimamönnum svo yfir. Rétt fyrir hálfleik jafnaði Grímur Ingi Jakobsson fyrir Gróttu.
Staðan í hálfleik 2-2 en í blálok fyrri hálfleiks varð Ægir fyrir áfalli þegar Anton Fannar Kjartansson fékk rautt spjald.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik og lokatölur 2-2.
Grótta er í sjöunda sæti með jafnmörg stig og Grindavík. Ægir er enn límdur við botninn.