Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, var alls ekki frábær fyrstu tvo dagana hjá svissnenska félaginu Basel.
Frá þessu greinir þjálfarinn Heiko Vogel en hann vann með Salah hjá félaginu árið 2012 og tók ákvörðun um að semja við Egyptann.
Þjálfarateymi Basel efaðist um Salah til að byrja með eftir frammistöðu hans á æfingasvæðinu en fyrstu tveir dagarnir voru erfiðir.
Það var svo slæmt að Vogel velti því fyrir sér hvort Salah ætti tvíburabróður eftir að hafa séð myndbönd af vængmanninum á YouTube.
,,Ég sagði við hann að hann ætti bara að æfa eins og venjulega, að við værum nú þegar búnir að taka ákvörðun,“ sagði Vogel.
,,Þegar hann mætti til æfinga á fyrsta degi þá voru allir að fylgjast með honum og við veltum því fyrir okkur hvort hann ætti tvíburabróður.“
,,Seinni dagurinn var aðeins betri en ekki góður. Svo kom þriðji dagurinn og hann tók alla í gegn, hann var óstöðvandi. Það var ótrúlegt að horfa á þetta.“
,,Hann var svo lipur, svo kraftmikill. Ef hann var með boltann þá þýddi það mark. Eftir þessa frammistöðu vissum við af hverju við vildum semja við hann.“